árni.annáll.is

AnnállFeðraorlofGuðfræðiKvikmyndirSamfélagTrúmálTrúmálVefur
Brjóstagjöf og andleg iðkan

09.05 25/1/08 + 1 ath.

Á Fidelia’s Sisters birtist í vikunni pistill um brjóstagjöf. Melissa Wilcox lýsir því hvernig brjóstagjafatíminn varð að bænatíma, hvernig barnstíminn varð Guðstími. Af augljósum ástæðum hef ég harla lítið að segja um þá reynslu að hafa barn á brjósti en samt sem áður deili ég þessari reynslu með henni. Á fyrstu vikum lítillar hnátu hér á heimilinu var pabbafaðmur nefnilega hvílustaður að lokinni brjóstagjöf. Þar var lengi kúrt og lúrt. Þessar samvistir voru bænatími og þær voru Guðstími. Eilífðin varð sýnileg í augnablikinu.

Kökustund

23.21 12/12/07 - 0 ath.

CookieTime

Blanda saman haframjöli, cashew-hnetum, sykri, smjöri, lyftidufti og hveiti (ekki endilega í þessari röð).

Baka í 15 mínútur við hæfilegan hita.

Skreyta með bræddu súkkulaði.

Njóta með ástvinum.

Vetrarveröld

13.44 10/12/07 - 0 ath.

Winter Wonderland III

Vetrarveröldin hélt innreið sína í miðbæinn á fimmtudagskvöldi. Frost og kuldi útivið. Kyrrð í lofti. Snjókorn sem tylltu á trjágreinarnar.

Nana

12.28 10/12/07 + 1 ath.

Orð dagsins er nana sem þýðir á ungbarnamáli heimilisins banani (ég get mér til að orðmyndina megi rekja til spurningarinnar „viltu banana?“ sem stundum heyrist heimavið.) Orðið getur merkt ýmislegt, allt eftir samhenginu:

Nana! Mig langar í banana!

Nana? Er til banani?

Nana. Þetta er banani.

Namm nana. Þetta var góður banani. Má ég fá meira?

Annars ætlum við að elda og njóta sænskrar matargerðar næstu daga. Ég keypti nefnilega Allt om mat (tvö jólablöð) á Arlanda í gær og sá þar ýmislegt girnilegt.

Ps. Eins og allir vita er ungbarnamál fjölbreytt og fer mikið eftir einstaklingum. Nana þarf því alls ekki að merkja banani þegar það kemur úr munni annarra barna en minna eigin ;)

Piparkökuskreytingar

19.52 5/12/07 - 0 ath.

Just a spoonful of sugar, makes the ...

Um síðustu helgi var piparkökuskreytingadagur á leikskólanum. Við feðgin fórum saman og skemmtum okkur konunglega. Ég er ekki frá því að það eigi bara betur við mig að dunda mér við piparkökur en hefðbundnara jólaföndur ;)

Nói og frú eru í uppáhaldi

22.32 29/11/07 - 0 ath.

Hafdís Huld er í miklu uppáhaldi hér á heimilinu. Við feðgin höfum hlustað á Tomoko ótal sinnum í haust og sú litla dillar sér í takt og dansar af list. Nú er kominn út nýr Hafdísardiskur sem heitir Englar í ullarsokkum. Og við höfum þegar tekið ástfóstri við eitt lagið. Það heitir Örkin hans Nóa en gengur hjá okkur undir nafninu Nói og frú (það eru upphafsorðin). Lagið er grípandi og skemmtilegt, eins og við var að búast. Til hamingju með diskinn Hafdís Huld og takk fyrir okkur.

Afakross

17.58 26/11/07 - 0 ath.

Memorable

Fæðingarorlofslíf er hið hæga líf og samvera fjölskyldumeðlima er í fyrirrúmi. Stutt er til aðventu og fjölskyldumeðlimir farnir að hugsa um það hvernig við gleðjum okkar nánustu með gjöfum. Ég nefndi í færslu hér að framan að eftirminnilegasta jólagjöfin er handsmíðuð. Og hér kemur svo mynd af afakrossinum.

Með barnið í vinnuna …

15.18 24/11/07 + 7 ath.

Á Fidelia’s Sisters blogginu (sem er blogg nokkurra bandarískra kvenpresta) skrifar Sarah Moore-Nokes um börn og vinnustaði (nánar tiltekið það að taka barnið með sér í vinnuna). Hún segir meðal annars:

Babies do a funny thing in public settings. They lighten the mood, they make people laugh, they make otherwise very serious people say very silly things and more often then not they provide the perfect opportunity for someone to tell you a story about their own children. I’ve learned to listen carefully, sharing laughter and a surprising number of tears.

Tær

21.06 11/11/07 + 4 ath.

Yngri dóttirin stundar málæfingar af kappi þessa dagana, orðaforðinn eykst og framburður verður sífellt skýrari. Í morgun vorum við að tala um andlitið, bentum á eyru og augu og munn og nef og sögðum orðin. Ég ákvað að færa aðeins út kvíarnar og benti á tærnar. Þetta hitti í mark og orð dagsins hefur verið „tær“ og það hefur heyrst reglulega og svo er bent á litlar sætar tær og brosað út að eyrum …

IMG_8750

Í kvöld stigum við svo skrefi lengra og sungum saman „Höfuð, herðar, hné og tær.“ Lítil hnáta var snögg að taka undir og syngja sinn part og þá hljómaði þetta einhvern veginn svona:

Höfuð, herðar hné og
TÆR
Hné og
TÆR

Höfuð, herðar hné og
TÆR
Hné og
TÆR

Aftur og aftur. Er lífið ekki yndislegt :)

·

© árni.annáll.is · Færslur · Ummæli