árni.annáll.is

AnnállFeðraorlofGuðfræðiKvikmyndirSamfélagTrúmálTrúmálVefur

« Ekki blóm · Heim · Fólkið er fjársjóður »

Ps. Ég elska þig

Árni Svanur @ 23.27 2/1/09

Fyrsta kvikmynd ársins á heimilinu er gerð eftir skáldsögu Cecilu Ahern og heitir því frumlega nafni Ps. Ég elska þig. Hún kom mér sannast sagna svolítið á óvart, ekki síst af því að hún passar ágætlega inn í tvö rannsóknarverkefni sem ég er að vinna. Í henni er stutt atriði þar sem prestur kemur við sögu og þarna er sögð saga af uppgjöri við sorg og einhvers konar endurlausnarferli.

Aðalsöguhetja myndarinnar er ekkjan Holly sem syrgir Gerry. Hann lést fyrir aldur fram úr krabbameini. Sorgin er sár og erfið og áhorfandinn fær betri tilfinningu fyrir hana gegnum stutta viðkynningu við Gerry í upphafi myndarinnar þar sem samband þeirra hjóna er kynnt. Fyrir dauða sinn hafði Gerry skrifað konu sinni nokkur bréf og skilið eftir fyrir hana.

Bréfin leiða hana í raun í gegnum sorgarferlið og hjálpa til við uppgjörið. Þau ögra henni á réttum stöðum, leiða áfram og miðla mikill hlýju. Ferlið allt spannar eitt ár og á þessum tíma fetar Holly stíg sorgarinnar og lærir að líta lífið nýjum augum, horfa fram á við og uppgötvar köllun sína (sem er semsagt að vera skóhönnuður).

Myndin er sykursæt, en engu að síður afar áhugaverð og það er full ástæða til að skoða hana nánar. Hún minnti mig svolítið á The Ultimate Gift. Það væri kannski gaman að skoða þær saman.

Ps. Þetta er fyrsta kvikmyndin, til hliðar höfum við horft á þriðja ár af 24. Það er hæfilega fyrirsjáanlegt og spennandi ;)

url: http://arni.annall.is/2009-01-02/ps-eg-elska-thi/


© árni.annáll.is · Færslur · Ummæli