árni.annáll.is

AnnállFeðraorlofGuðfræðiKvikmyndirSamfélagTrúmálTrúmálVefur

« Kyrravika á netinu · Heim · Hvað táknar páskaeggið? »

Víetnam og krossinn

Árni Svanur @ 21.28 21/3/08

Gunnar Kristjánsson prédikaði í útvarpsmessu í morgun. Ég heyrði hluta af prédikuninni þá og las hana svo síðar í dag. Þetta er afbragðs prédikun þar sem hann fléttar listavel saman Golgata þá og nú, notar kirkjulistina og dregur veruleika krossins fram með skýrum hætti. Hann segir meðal annars:

Sá sem horfir á hinn þjáða Krist lifir sig inn í píslir hans en jafnframt – og ekki síður – inn í þjáningar annarra, myndin skerpir vitund hans, og næmleikinn fyrir sársauka annarra dýpkar. Samkennd hans með öllum sem þjást verður honum meðvituð. Svo krefjandi eru myndir hinna afskræmdu Víetnama, svo krefjandi eru myndirnar frá Golgata.

Hin sterka samsemdarhugsun kristinnar trúar skilar sér í lífsviðhorfi þar sem enginn er afskiptur. Og þar sem virðing mannsins er ekki fyrir borð borin, ekki heldur virðing þeirra sem líða, jafnvel gleymdir í pyntingum á afskekktum stöðum.

Ps. Tengingin við Víetnam liggur í því að Gunnar gerir að umtalsefni Tet-árásir bandaríska flughersins í Víetnam og málverk listamannsins Xuan Huy Nguyen sem fjalla um afleiðingar þessara árása.

url: http://arni.annall.is/2008-03-21/vietnam-og-krossinn/

Athugasemdir

Fjöldi 6, nýjasta neðst

Torfi Stefánsson @ 22/3/2008 12.54

Fín predikun en samt er eins og hún sé nokkurra áratuga gömul. Táknmyndir krossins birtist í atburðum sem gerðust fyrir 40 árum eða svo.

Síðan þá hefur margur krossinn birst, svo sem í kjölfar innrásarinnar í Írak þar sem um 1,2 milljónir manna eru sagðir hafa látist – og stór hluti þjóðarinnar lifir við hungurmörk.

Af hverju ekki að ræða það örlítið – ekki síst vegna orða G.W. Bush fyrir nokkrum dögum um hinn mikla árangur af herferðinni. Þarna eru skarpar andstæður til að leika sér með – og tala beint inn í okkar samtíma.
Nægar eru upplýsingarnar á netinu um morð Bandaríkjamanna á óbreyttum borgurum og nægar myndirnar af mannréttindabrotum þeirra.
Og það athyglisverða af þessu öllu saman er hinn trúarlegi bakgrunnur innrásarinnar. Bush er jú þekktur trúmaður og talaði um krossferð hins siðmenntaða heims í upphafi árásarinnar á Írak.

Ef Gunnar hefði haft Bush í huga þá hefði hann eflaust ekki skrifað þessi orð:
“Hin sterka samsemdarhugsun kristinnar trúar skilar sér í lífsviðhorfi þar sem enginn er afskiptur. Og þar sem virðing mannsins er ekki fyrir borð borin, ekki heldur virðing þeirra sem líða, jafnvel gleymdir í pyntingum á afskekktum stöðum.”

Kristin trú er nefnilega ekki það sama og kristin trú!

Árni Svanur @ 22/3/2008 14.52

Vissulega eru þetta gamlir atburðir, en þeim er miðlað í samtímanum í listaverkunum sem Gunnar fjallar um. Þar með verður fortíðin „relevant“ – og er það ekki eitt temað sem við glímum almennt við?

Torfi Stefánsson @ 22/3/2008 15.44

Jú, jú, mikið rétt.
En samt sakna ég þess að heyra ekki Gunnar taka afstöðu til krossbirtinga í nútímanum. Það fyrsta sem mér dettur í hug er að hann sé að passa það að styggja engan. Það er allt í lagi að tala um Víetnam í dag og vargöldina í Mið-Ameríku á sínum tíma – hvort tveggja verka Ameríkans. En Kaninn er enn að og lætur svo sannarlega ekki deigann síga. Af hverju ekki að taka dæmi um það?

Og af hverju ekki að fjalla um mótsögnina kristinn og ofbeldismaður? Hvernig getur maður verið bæði í senn trúaður og morðingi? Það hlýtur að vera aktuelt tema á föstudeginum langa. Krossinn er jú bein árás á sjálfsréttlætinguna og sjálfsupphafninguna.

Þeir sem aðhyllast krossinn eru ekki hræddir við þjáninguna. Þeir eru tilbúnir til að líða fyrir sannfæringu sína – rétt eins og Kristur gerði. Mér þætti gagnlegt og jafnvel gaman að sjá klerka okkar lands taka sjálfviljugir á sig slíkt ok sem meistarinn tók á sig – en tali sig ekki frá því eins og mér finnst Gunnar gera hér.
Enda spyr maður sig, eru kirkjunnar menn almennt færir um að lifa sig inn í þjáningar annarra? Verður maður ekki sjálfur að hafa upplifað þjáningu til að geta skilið þjáningar meðmanneskjunnar – og vera ekki hræddur við að taka hana á sig og það helst daglega?
Er ekki líf prestanna alltof voðum klætt til þess að þeir geti skilið vosbúð náungans?

Árni Svanur @ 23/3/2008 10.11

Mér finnst áhugaverðara að ræða um það með hvaða hætti má fjalla um krossinn almennt og spyrja hvernig er hægt að gera hann skiljanlegan í samtímaum en að velta því upp hvers vegna tiltekinn prédikari gerir það ekki eins og þér eða mér þætti áhrifaríkt eða áhrifaríkara.

Og eins og ég segi hér að framan þá þykir mér prédikun Gunnars bæði góð og áhrifarík. Það breytir því þó ekki að áhugavert er að ræða um það hvernig við getum miðlað krossinum í dag.

Hitt er svo annað mál að mér þykir það einmitt áhugavert við prédikun Gunnars að notar listaverk manns sem ekki reyndi þessar árásir á eigin skinni en upplifði samt þjáninguna og er vitni að henni. Þannig verður prédikunin kannski óbeint innlegg í umfjöllunina um brúarsmíði.

Varðandi þjáninguna og miðlun hennar og innlifun og samsemd þá er það kannski efni í umræðu út af fyrir sig. Þjáning er af margvíslegum toga. Fórnarlömb kúgunar og ofbeldis í fjarlægum löndum og hérlendis, fólk sem glímir við sjúkdóma og missi svo eitthvað sé nefnt. Slík reynsla er persónubundin og það sama gildir um reynslu aðstandenda og þeirra sem eru vitni að henni. Ég held sannast sagna að það sé erfitt og ekki endilega gagnlegt að fullyrða um það hvort tiltekinn hópur getur eða getur ekki lifað sig inn í þjáningar annarra.

Torfi Stefánsson @ 23/3/2008 14.29

Það “má” vonandi ræða um krossinn á hvern þann hátt sem maður líkar.
Mér finnst hins vegar spurningin um trúverðugleikann mikilvægust. Getur kirkjan og þjónar hennar fjallað um þjáninguna þegar hún og þeir virðast leggja allt í sölurnar til að upplifa hana ekki á sjálfum sér. Virðast segi ég því ég veit auðvitað ekki um einkasorgir klerkanna.

Þjóðkirkjan er svo háð velvilja ákveðins valdamikils hóps að hún þorir ekki að láta í sér heyra á þann hátt sem hinn spámannlegi boðskapur kristninnar kallar eftir. Hún er þröngsýn, íhaldsöm og siðavönd á þann hátt að verður að segjast að jaðri við hræsni.
Hún tekur einfaldlega ekki afstöðu með minnihlutahópum eins og hommum og lætur lítið í sér heyra um kynþáttamál.
Hún þegir meira eða minna um Íraksstríðið, um misskiptinguna í heiminum, um fjármála- og umhverfiskreppuna.
Samt á þetta allt saman svo vel við hinn kristna boðskap, við það erindi sem kirkjan á í heimunum: virðingu fyrir sköpuninni, andófinu gegn græðginni, umburðarlyndi gagnvart ólíkum siðum og skoðunum osfrv.
Það er auðvitað stór spurning hvort kirkjan sé nokkuð kristin.
Sú spurning á að hljóma á páskum. Erum við kristin í raun og veru? Erum við tilbúinn til að leggja allt í sölurnar fyrir þann sem þarf á upprisu að halda?
Páskarnir eru tími sjálfsskoðunar, sjálfsgagnrýninnar.

Ég heyrði ekkert af slíku hjá Gunnari Kristjánssyni. Hann talaði um voðaverk en ekkert um hverjir frömdu þau. Kristin þjóð sprengdi asíska þjóð aftur til steinaldar og kristin viðskiptamenning græðir nú fúlgur fjár við að koma þessari sömu þjóð aftur inn í nútímann.
Glæpasveitir kristinnar einræðisstjórnar, studd af hinu útvalda þjóð Guðs, Könunum, drápu munka og háskólaprófessora sem gerðu það eitt af sér að styðja réttindabaráttu fátækra alþýðu.

Gunnar talaði heldur ekkert um birtingarmyndir hins kristna kærleika þessa daganna, Afganistan, Írak, Sómalía, Ekvador…

Mér finnst hann einfaldlega holróma …

[Innsk. annálaritara: Höldum okkur við umræðuefnið. Þessi færsla fjallar ekki um kirkjuna almennt eða tiltekna hópa innan hennar.]

Árni Svanur @ 23/3/2008 16.24

Afstaða þín er skýr Torfi og ég vona að mín sé það líka. Takk fyrir innleggið. Látum gott heita að sinni.

Lokað er fyrir athugasemdir.

© árni.annáll.is · Færslur · Ummæli