árni.annáll.is

AnnállFeðraorlofGuðfræðiKvikmyndirSamfélagTrúmálTrúmálVefur

« Gegn kynþáttamisrétti · Heim · Kyrravika á netinu »

Lúther leiðinlegi

Árni Svanur @ 14.52 20/3/08

Í bókinni Martin Luther, människohjärtat och Bibeln fjallar Birgit Stolt um mynd fólks af Lúther, einkum þá sem má finna meðal Svía. Hún bendir á að ranga mynd af Lúther megi m.a. rekja til útgáfu Johannesar Aurifaber á Borðræðunum þar sem hann „ritskoðaði“ sumar yrðingar siðbótarmannsins og gerði þær all frómari en var raunin. Tökum dæmi (lauslega þýtt úr sænsku, inntakið heldur sér):

Útgáfa Aurifaber (sem hann þýddi og umorðaði úr latínu):

Ef einhver er þjakaður af sorg eða efa þá skal hann fyrst leita huggunar í Orði Guðs; svo skal hann eta og drekka og leita eftir félagsskap og samtali við kristna menn sem óttast Guð. Þá verður allt betra.

Texti Lúthers (sem Stolt þýddi beint úr latínu):

Þegar þú ert dapur eða efast eða ert plagaður að öðru leyti skaltu eta og drekka og leita eftir félagskap annarra. Ef þú getur glatt þig með því að hugsa um stúlkur skaltu gera það.

Stolt segir mörg fleiri dæmi um svona úrvinnslu og alltaf finnum við sömu áherslu: Það er tilhneiging til að draga úr lífsgleðinni, en leggja áherslu á meinlæti og frómlegheit. (Stolt, bls. 25).

url: http://arni.annall.is/2008-03-20/luther-leidinlegi/

Athugasemdir

Fjöldi 8, nýjasta neðst

Hjalti Rúnar Ómarsson @ 20/3/2008 15.03

Þannig að Lúther hefði verið sáttur við bingóið á morgun!

Árni Svanur @ 20/3/2008 15.26

Þú getur ekki dregið þá ályktun af þessari færslu. Hún er fyrst og fremst viðbrögð við þeirri almennu fullyrðingu að Lúther hafi verið leiðindagaur sem mér þótti kallast á við myndina sem leidd er af skrifum Aurifaber.

Pétur Björgvin @ 20/3/2008 15.30

Í öllu falli við að það færi fram upplýst umræða um helgidagalöggjöfina og að almenningur hefði svigrúm til að tjá sig. Eftir því sem ég best veit á bingóið (sem oftast í gegnum aldirnar hefur verið spilað í kirkjum til að styrkja góð málefni) rætur sínar að rekja til Ítalíu þar sem þegar 1530 varð til það sem heitir Lo Giuoco del Lotto d’Italia og hluti þeirrar þróunar var einfalda útgáfa þessa lottós, spil sem líkist bingóinu eins og við þekkjum það mjög. Hvort Lúther kallinn fylgdist með þeirri þróun hef ég ekki hugmynd um.

Hjalti Rúnar Ómarsson @ 20/3/2008 15.39

Við getum þá sleppt því að einblína á bingó. Hefði Lúther verið sáttur við spil eins og bingó á föstudeginum langa?

Árni Svanur @ 20/3/2008 16.25

Ég hef ekkert sagt um bingó og færslan er ekki sem innlegg í þá umræðu, eins og ég sagði hér að ofan. Hún er viðbragð við fullyrðingu sem kom fram í Fréttablaðinu í dag.

Það væri í sjálfu sér fróðlegt að skoða hvort Lúther tjáði sig eitthvað um það hvernig menn skyldu haga sér á helgum dögum, s.s. föstudeginum langa. Ég man ekki eftir slíku í svipinn, en það má sjálfsagt finna eitthvað slíkt. Mér þykir líklegt að hann hafði hvatt til kirkjusóknar og íhugunar á pínu og dauða Jesú Krists.

Finnir þú dæmi um þetta í ritum Lúthers máttu gjarnan deila því með okkur hinum.

Óli Gneisti @ 20/3/2008 18.50

Það gæti alveg verið að Lúther hafi kallað spil slæm verk. En ekki er ég með gráðu í þessum fræðum.

Torfi Stefánsson @ 23/3/2008 21.08

Ég er ekki viss um að við Íslendingar hafi þessa mynd af Lúther, þ.e. sem leiðindagaur. Bæði hefur lítið verið þýtt eftir hann og enn minna um hann svo spurningin er hvort við séum svo lúthersk eftir allt saman.
En við mættum alveg vera það að mörgu leyti. Sérstaklega hvað varðar sjálfsréttlætinguna og gagnrýnisleysið.
Lúther sagði t.d. eitt sinn að þegar sátt ríkti í kirkjunni þá væri víst að djöfullinn væri í spilinu. En þegar deilur og ágreiningur væri uppi þá væri andinn starfandi.

Því finnst mér furðulegt hvað menn eru almennt hræddir við gagnrýna orðræðu um kirkjuna og vilja helst ritskoða slíkt (eins og ég upplifði nú fyrr í dag hér á annálnum). Það er ekki lútherskt að mínu viti og sannar kannski það áðursagða. Kirkjan okkar er alltof lítið lúthersk á sumum sviðum.

Þá vil ég benda á orð biskups í morgun um að hinir trúðuðu sé að mörgu leyti alls ekki betri eða siðaðri en þeir trúlausu. Það finnast einnig siðlausir menn innan kirkjunnar.
Þarna kom biskup á móts við gagnrýni Siðmenntar og Vantrúar – og er það vel.
Vona bara að ritskoðunarmennirnir hér á annálnum leyfi svipaðri kirkjugagnrýni að heyrast hér.

Árni Svanur @ 23/3/2008 21.30

Við höfum rætt oft saman hér á annál Torfi og þú þekkir vel hvernig ég held á málum. Samt sem áður kemur það ítrekað fyrir að þú ferð út fyrir þann ramma sem ég vil setja umræðunni (og hef gert þér og öðrum ljósan), t.d. með því að reyna að nota ummælin sem vettvang til að hnýta í nafngreinda einstaklinga eða hópa og með því að teygja umræðu út fyrir efni færslunnar (eins og þessi ummæli þín eru reyndar ágætt dæmi um.)

Ég leyfi þeim samt sem áður að standa, en bið þig að virða þetta héðan í frá (eins og ég held að ég hafi gert áður, jafnvel oftar en einu sinni).

Ég hef ekkert við málefnalega gagnrýni að athuga, hvort sem hún beinist að Þjóðkirkjunni eða öðrum.

Að síðustu vil ég hvetja þig til að setja upp þitt eigið blogg þar sem þú getur haldið uppi þeim málflutningi sem þú vilt.


© árni.annáll.is · Færslur · Ummæli