árni.annáll.is

AnnállFeðraorlofGuðfræðiKvikmyndirSamfélagTrúmálTrúmálVefur

« [nordkom] Þjóðkirkjur í breyttu samfélagi · Heim · [nordkom] Morgunbænir »

[nordkom] Vefsamskipti og nýir miðlar: Nýjar áskoranir

Árni Svanur @ 09.06 30/8/07

Nú er að hefjast dagskrárliður sem ég er afar spenntur fyrir, Johan Mansfeldt og Gunnar Westermoen sem stýra vefmálum hjá sænsku og norsku kirkjunni ætla að kynna þetta stóra og mikilvæga svið fyrir okkur. Þetta verður bloggað í beinni.

Þeir ætla að vinna þetta sem e.k. Mash-up, setja þetta upp sem sameiginlega kynningu þar sem dregnir eru saman þræðir úr nokkrum áttum. Þeir byggja þetta svona upp:

1. Samskipti á vefnum
2. Markhópavinna og efnisgerð
3. Nýir miðlar og framtíðarpælingar

Þróunin hefur verið nokkuð hröð, frá fjöl-miðlun til einstaklingsmiðla. Gamla módelið var að einn sendi til margra, nú er módelið til viðbótar það að margir senda til einstaklinga og maður vinnur á mann. Það hefur átt sér stað ákveðin lýðræðisvæðing sem felst í því að það er ódýrara að kaupa verkfæri til að skapa efni og afar ódýrt að koma því á framfæri!

Þetta helst í hendur við þá þróun sem Ingmar ræddi áðan, þ.e. frá „massekultur“ til „nisjekultur“. Höfum lagt af áhersluna „one size fits all“. Það er í raun notandinn, neytandinn, sem stýrir netinu (a.m.k. ennþá).

Þeir segja meðal annars: „Ef við höfum alla sem markóp náum við ekki til neins.“ Ég er sammála því og ósammála. Held að við getum sent út almenn skilaboð – ekki endilega til allra – en til dæmis til þeirra sem eru meðlimir í kirkjunni (markhópur vissulega, en nokkuð stór). En um leið er mikilvægt að vera sér meðvitaður um að við erum alla jafna að tala til ákveðins hóps. Nokkrar spurningar sem má hafa í huga í því sambandi:

* Við hverja tölum við í dag?
* Viljum við tala við?
* Hvað vilja þau vita?
* Hvað viljum við segja?
* Hvernig náum við því markmiði?

Við höfum ákveðin markmið, sem eiga í það minnsta að vera skýr. Og þurfum að vera okkur meðvituð um það í öllum samskiptum! Það sem ég velti reyndar fyrir mér í þessu sambandi hvort það sé ekki eitt hlutverk okkar sem sinnum samskiptamálum kirkjunnar að búa til verkfærin þar sem litlu áhugasömu hóparnir geta mæst og átt samskipti.

Markhópar sænsku kirkjunnar – fyrir þeirra vef:

* Utsatta, svaga (diakoni)
* Unga (idealitet)
* Sekulaseradi storstadsbor (tradition)
* Kyrkligt interesserade (tro)

Og svo eru það allir sem eru í e.k. krísum og leita til kirkjunnar. Það er mikilvægur markhópur. Nú er unnið að nýjum vef og þá getur áherslan breyst aðeins. Til að vinna með skýrum hætti með þetta bjuggu þau til einstaklinga, fjóra ólíka, sem hafa hver sína sögu – og þeir eiga að endurspegla sænsku þjóðina. Lýsingin nær til hegðunarmunsturs og þess sem drífur hann/hana áfram. Þetta er nokkuð snjöll áhersla.

Hverjar eru þær:

* Johan, hann er á krossgötum í lífi sínu, er þreyttur, þarf lágan þröskuld, leitar að e.k. ráðum fyrir lífið sitt, að handleiðslu. Hann stendur fyrir þá sem eru „utsatt“ eða „svag“.
* Alexandra er fulltrúi þeirra ungu. Hún veit hvað hún vill, stendur gegn kennivaldi, hefur ákveðinn „bullshit-radar“, „moklofs“ – „mobile kids with lots of friends“. Þetta eru krakkarnir sem taka mikið inn – höndla mikið áreiti – spurning hvernig kirkjan á samskipti við þau.
* Louise er fulltrúi borgarbúanna afhelguðu, hún er einstaklingshyggjumanneskja, á lítið barn, hefur lítinn tíma, gerir miklar kröfur, vill ekki miklar breytingar. Eitt af því mikilvæga er að hún er foreldri og það kallar á ákveðinn ramma … Þessi hópur getur blandað saman ólíkum þáttum, eins konar hlaðborð þar sem blandað er saman því sem hentar.
* Gunilla er eldri kona, hefur ríka trú, virðir kennivald, býr úti á landi, gefur af tíma sínum og hugsar u um heildina. Þetta er stór hluti af þeim sem eru mjög virkir í kirkjunni (sennilega líka á Íslandi).

Fyrir hvern hóp þarf að spyrja:

Hvað vill ég vita, hvers leita ég, hver eru markmiðin? Það er unnið með þetta í hópvinnu, safnað saman hugmyndum á kort (svona eins og við gerum stundum). Þar með fáum við tilfinningu fyrir því sem er mikilvægt fyrir hvern hóp sem nýtist okkur þegar efnið er sett saman.

Afraksturinn af þessu var valmynd fyrir hvern hóp, og svo er það sett upp fyrir prufunotendur og endurskoðað.

Johan sýnir okkur næst nýja sænska vefinn, þar er meðal annars á öllum síðum tengill sem hefur yfirskriftina „När ditt liv förändras“ og svo eru s.k. „Pratbubblor“. Leiðin liggur því næst að vef eins safnaðar. Þau hafa valið að fara þá leið að setja vefi safnaðanna upp sem hluta af stóra vefnum. Þar þarf líka að vera til staðar meðvitund um markhópa og þá má spyrja sig:

* Hvað ætlum við að skrifa?
* Fyrir hvern?
* Hvers vegna?
* Dæmi: Skrifa um ferminguna, fyrir börnin eða foreldrana?

* * *

Þá er komið að næsta tema sem er vefsamfélagið (the social web), þ.e. áherslan á efni sem er búið til af notendunum. Þessi vefur gengur í raun út á að dela með öðrum, deila upplýsingum og efni og vísunum. Gott dæmi um svona vef er YouTube.

Ein stór spurning sem við þurfum að hafa í huga er kannski þessi: Hvað höfum við að segja?

Lunarstorm.se er vefur þar sem kirkjan er virk og hefur verið lengi. Fjórtán prestar eru til staðar þar. Þar var Klubb kristendom, en e-r stjórnandi tók þann hóp yfir og henti út tæplega 2000 meðlimum á einni nóttu. Önnur netsamfélög eru líka að taka við af Lunarstorm. Facebook er eitt þeirra. Norðmenn hafa ekki verið jafn virkir á svona vefsamfélögum, en þeir eiga t.d. einn fyrirverandi biskup sem er mikilvirkur bloggari á stóru vefsvæði.

Þeir sýna líka dæmi af libresse.se sem er vefur dömubindaframleiðandans. Þar er umræðutorg og ung stúlka segir frá siðferðisklemmu tengdri fóstureyðingu. Hún er búin að slíta sambandi við kærastann og spyr hvort hún eigi að segja honum sannleikann um fóstureyðinguna sem hún ætlar í. Þetta er bæði dæmi um það hvernig þröskuldarnir eru lægri á netinu, einnig að þessi samtöl eiga sér stað út um allt og kirkjan má ekki bara loka sig inni í fílabeinsturni sinna eigin vefsvæða heldur á hún að vera út um allt. Ég er alveg sammála þessari áherslu, held raunar að það sé mjög mikilvægt að kirkjan sé sýnileg á sem flestum stöðum, að þar sé að finna augu og eyru (og fingur til að skrifa).

Í Noregi er búið að útbúa netkirkju, www.nettkirken.no, þar er prestur „online“ 2 tíma á viku og hægt er að leita til hans. Alla þriðjudaga frá 12-2 er hægt að leita til netprestsins. Það væri að mörgu leyti áhugavert að skoða þetta líka heima, enda er þörfin til staðar. Í Noregi er líka til „Kirkens SOS“ á www.kirkens-sos.no. Á síðarnefnda vefnum er hægt að skilja eftir skilaboð og fá svar, ekki bein samskipti í rauntíma heldur.

Ýmis fyrirtæki hafa tekið upp rauntímasamskipti, t.d. Ikea.

Á þessum vefjum er talað með texta, en það má líka eiga hefðbundnara samtal. T.d. með því að nota Skype (www.skype.com). Og þar er raunar hægt að gera þrennt: Skrifa texta, tala saman og horfa á viðmælandann.

Wikipedia er dæmi um annars konar samstarfsvef. Og á þeim vef (og slíkum vefjum) er heilmikið af upplýsingum um kirkjuna og trúna. Wikiformið er líka áhugavert. Það geta orðið til heilmikil samskipti um skrif á þeim vettvangi og það er ljóst að við þurfum bæði að vinna heilmikið starf á íslensku wikipediu og mættum líka skoða möguleikann á því að setja upp wiki sem hluta af okkar innraneti eða fyrir einstök verkefni (það gæti til dæmis hentað fyrir vinnu við handbók og sálmabók).

Enn ein leiðin fyrir vefsamfélög að fara eru sýndarheimar, Second Life, Habbo hotel og fleira. Þar eru miklir möguleikar, en þetta getur tekið mikinn tíma og getur kostað (s.s. Second Life). En í SL eru kirkjur til staðar (og eitthvað af fyrirtækjum og opinberri þjónustu). Spurningin er líka til hvers við erum staðar þarna, snýst þetta t.d. um að vera þarna með kirkjubyggingar eða um samskipti. Það er nokkuð góð spurning! Athyglisvert er að það hafa orðið til samfélög á vefnum, utan sýndarheimanna, sem snúast um þá. Til dæmis www.secondlife.se.

Þetta eru margir og ólíkir miðlar – t.d. má nefna bloggin hér sem eru ótalmörg. Einnig smáblogg s.s. á Twitter (www.twitter.com), geotagging (www.google.com/maps, www.thisnext.com) sem snýst um að tengja verkefni eða vinnu eða ljósmynd við tiltekinn stað á korti. Þetta er tvímælalaust tækni sem á eftir að vaxa heilmikið. Það verður að sama skapi áhugavert að sjá hvort og þá hvernig farsímar (og mobile-veftækni) tengist þessu.

Á vef sænsku kirkjunnar er að finna kort sem sýna landsvæði og kirkjur og sóknir. Sá sem smellir á kirkjuna fær síðu safnaðarins upp. Þeir nota ekki Google Maps núna, en gætu gert það í framtíðinni. Það gæti verið áhugavert fyrir okkur að skoða það sama – ég veit þó ekki hversu góð kort GM er með af Íslandi, óttast að þau séu svolítið verri en kortin af Svíþjóð ;) En það kemur, með tímanum!

En hvernig höldum við utan um allar þessar upplýsingar? Í því sambandi má nefna spurninguna um RSS veitur sem hægt er að draga saman á nokkrum vefjum (s.s. www.google.com/reader, www.bloglines.com).

* *

Þá er kastljósinu beint að vefnum murmur (www.murmurdublindocklands.info). Þar getur þú smellt á eyra og heyrt frásögn sem e-r tók upp (e.t.v. þar) af því sem gerðist á þeim stað. Vefurinn beinist bæði að þeim sem er forvitinn og vill heyra og hinum sem vill leggja eitthvað fram. Það gæti verið áhugavert að leggja fram efni um kirkjuna á svona vefi – eins konar „guided tour“ um kirkjur sem er auðveldlega aðgengilegt (getur meira að segja fengið þetta sent sem mms skeyti í símann þinn).

* * *

Frásagnir á vefnum er næsta temað. Haslum söfnuðurinn sem er nálægt Osló er að finna með trúarfrásagnir á vefnum, þetta er hluti af trúfræðsluverkefni Noregs. Og þau hafa búi ðtil stuttar kvikmyndir, við fáum að sjá eina.

Slíkar myndir ættu auðvitað að vera aðgengilegar á vefnum. Það væri gaman að fá dvd diskinn þeirra og sjá hvort við getum gert eitthvað svipað.

I en seng af grönne engler heitir vefurinn. Opnar með skoti á listaverk, tónlist undir – barnasálmur, ct í skóg, ct listaverk, ct úrklippubók, ung kona talar yfir, „Englarnir eru stórir …“ Vísar á Sl 23: Á grænum grundum, lætur hann mig hvílast. Þetta er upptaka af viðtali hugsa ég, myndskreytt. Væri sterkari með lifandi myndum, en er samt áhugavert og framsetningin er áhugaverð. Húmorinn er kannski sá að hún heyrði þetta sem „grönne engler“ en ekki „grönne enger“ :) Stutt og áhrifarík mynd.

Sjá einnig: www.digitalefortellinger.com.

Við þurfum að útbúa svona efni – myndi þó vilja gera það aðeins öðruvísi.

* *

Nú er komið að farsímunum, allt þetta efni getur átt erindi í þá miðla – þar liggur kannski stóra byltingin og við þurfum að skoða það vel! Ég hef viljað að þeir köfuðu dýpra ofan í það, er nokkuð spenntur fyrir slíku sjálfur, ekki síst þeirri mögulegu byltingu sem felst í iPhone.

* *

Ein lykilspurning: Hvert er sambandið milli efnis sem notendurnir búa til og efnis sem kirkjan sendir frá sér …

* *

Þetta er flott yfirlit hjá þeim, gefur góða innsýn í þetta stóra svið og opnar augu. Umræðan þarf að fara fram í framhaldi og verður örugglega lengri en þær örfáu mínútur sem við höfum hér.

url: http://arni.annall.is/2007-08-30/nordkom-vefsamskipti-og-nyir-midlar-nyjar-askoranir/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Pétur Björgvin @ 30/8/2007 21.47

… og ef við hér heima ætlum að ná til smáhópa, tala inn í afmarkaða kima þá getum við það aðeins ef við hættum að hugsa eins og margir litlir smákaupmenn og förum að hugsa sem eitt lið. Á ýmsum vefsíðum kirkna út um allt land er alls konar efni, stundum mjög misjafnt. Gaman væri ef við gætum nýtt þessa flóru í einni heild. Til þess þurfa Glerárkirkjur og aðrar kirkjur að fara ofan í saumana á netmálum sínum og samtengjast stóra bróður kirkjan.is

Frábært að fá svona fréttir af ráðstefnunni.


© árni.annáll.is · Færslur · Ummæli