árni.annáll.is

AnnállFeðraorlofGuðfræðiKvikmyndirSamfélagTrúmálTrúmálVefur

« Fullveldisdagstenglar · Heim · Í dag og á morgun og hinn »

Afaminning

Árni Svanur @ 10.28 2/12/05

Aðfangadagskvöld í Karfavoginum. Ég er sennilega fimm eða sex ára, amma og afi eru með okkur þetta kvöld, í fyrsta skipti á aðfangadagskvöldi eftir því sem ég man best. Mikil jólagleði, spjall og auðvitað er heilmikið hjalað við lítinn snáða. Ekki man ég mikið eftir gjöfunum, utan einni: Action-man ofurhetjukalli sem leyndist í pakka. Flottur kall og sterkur! Eins og afi.

Annað aðfangadagskvöld, rúmum áratug síðar, að þessu sinni heima hjá Kristjáni og Eddu, á einum -teignum þar sem þau gerðu heimili sitt. Eftir góða máltíð voru teknir upp pakkar. Í einum þeirra, frá afa og ömmu, leyndist kross. Hvítmálaður kross á svörtum fæti. Fallegt handverk, afa-handverk. Afi var ekki bara sterkur, hann var líka handlaginn.

Krossinn hvíti hefur verið á heimili mínu síðan. Hann stendur nú á heimilisaltari fjölskyldunnar og þjónar þar tvenns konar tilgangi. Sem kross minnir hann á Jesú Krist, dauða hans og upprisu. Sem afasmíði kveikir hann fjölmargar góðar minningar um Svan afa minn. Notalegar stundir í eldhúsinu á Þórsgötunni, kæfuna sem afi gerði, jólakökurnar sem hann bakaði, jólatréð sem var alltaf jafn ríkulega skreytt, hlýjuna sem stafaði frá heimili þeirra hjóna. Öryggistilfinning og opinn faðmur, þannig minnist ég afa og ömmu. Þökk fyrir það allt.

Það leið ekki langur tími milli andláts ömmu og afa. Nú fá þau enn á ný að hvíla saman, hlið við hlið, örskotsspöl frá yngstu dótturinni. Og þótt sorgin sé erfið og sárt að missa er eitthvað notalegt við þá tilhugsun að þau sem voru svo oft sameinuð við eldhúsborðið, við kaffidrykkju og spjall, fái nú að hvíla í námunda hvert við annað.

Guð blessi minningu Svans afa míns.

url: http://arni.annall.is/2005-12-02/10.28.30/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Þorkell @ 2/12/2005 14.31

Innilegar samúðarkveðjur elsku Árni Svanur.

Lokað er fyrir athugasemdir.

© árni.annáll.is · Færslur · Ummæli