árni.annáll.is

AnnállFeðraorlofGuðfræðiKvikmyndirSamfélagTrúmálTrúmálVefur

« Mies vailla menneisyyttä · Heim · Hvað er að deyja? »

Um ummæli

Árni Svanur @ 22.45 7/8/03

Ég hef aðeins verið að velta því fyrir mér siðareglum og stefnumörkum varðandi ummæli á annálum. Á vefjum þar sem hægt er að eiga einhver samskipti verða alltaf til óskrifaðar samskiptareglur, en stundum getur verið gagn að því að ganga lengra með því að festa þessar reglur í orð.

Ég minnist þess fyrir nokkru að Derek Powazek, netsamfélagsgúru, lokaði alveg fyrir ummæli á annálnum sínum. Ef ég man rétt þá var meginástæðan sú að ummælin voru of oft meiðandi í hans garð og geymdu árásir á persónu hans.

Í vor sá ég að Mark Pilgrim er með svona ummælastefnu á sínum annál. Útgangspunktur hans (sem DP ræðir raunar líka í bók sinni Design for Community) er sá að annállinn hans er hvorki opið né lýðræðislegt umræðutorg heldur persónulegur vettvangur. Mark nefnir fernt sem getur leitt til þess að ummælum sé eytt eða strikað yfir þau með rauðu.

  1. Ummælum sem eru í rifrildisstíl (contain flames) eða fela í sér persónulegar árásir (ad hominem) á nafngreinda aðila eru merkt sérstaklega (hugmyndin að þessari útfærslu er upphaflega komin frá Sam Ruby). Dæmi um þetta gæti t.d. verið:

    “Ég er alveg ósammála þér og þú ert ósjálfstæður heimskingi.”

    sem væri merkt svona:

    “Ég er alveg ósammála þér og þú ert ósjálfstæður heimskingi.”

  2. Ummælum sem eru í rifrildisstíl eða fela í sér persónulegar árásir á fjölskyldu annálaritarans er eytt.
  3. Ummælum sem ekki snerta umræðuefnið er eytt.
  4. Ummælum sem geyma blótsyrði er eytt.

Mér finnst þetta að mörgu leyti áhugaverð útfærsla. Það væri gaman að heyra viðhorf fleiri annálaritara til þessa máls.

Ps. Því er algjörlega stolið úr mér hvort til eru góð íslensk orð yfir “flames” og “flame war” (önnur en “að fleima” eða “flambera”). Ef einhver lumar á slíkum þá má gjarnan skilja þau eftir – slík ummæli snerta umræðuefnið og þeim verður þar af leiðandi ekki eytt ;-)

url: http://arni.annall.is/2003-08-07/22.45.28/

Athugasemdir

Fjöldi 13, nýjasta neðst

Carlos @ 7/8/2003 22.50

Gott mál (no pun intended!)

Árni Svanur @ 7/8/2003 23.26

Jason Kottke fer eins konar milliveg á sínum annál. Í kringum reitinn þar sem ummæli eru skrifuð eru vinsamlegar ábendingar (t.d. um að lesa færsluna og ummælin áður bætt er við þau, að forðast alla eldvörpun o.s.frv.). Auk þess setur hann góðlátlegar ábendingar í ummæli ef þörf er á.

Árni Svanur @ 8/8/2003 17.09

Birgir nokkur hefur tjáð sig um þessa færslu á sínum eigin annál. Af þeim sökum er rétt að ítreka að þessi færsla fjallar ekki um hann. Hún er almenn íhugun um annálaritun og ummælasiðferði, byggð á athugun á því sem nokkrir þekktir annálaspekingar hafa sagt eða gert í slíkum málum. Hitt er svo annað mál að svona siðareglur geta auðvitað átt við þegar fólk tjáir sig hér á annálnum, það gildir jafnt um Birgi og alla aðra.

Örvar @ 8/8/2003 19.58

Já, siðareglur fyrir athugasemdirnar eru bráðnauðsynlegar. Mér er minnisstæð færsla sem birtist í einhverjum annálinum um daginn um ruslpóst þar sem athugasemdirnar fóru fljótt í allt aðra sálma og enduðu með því að tveir utanaðkomandi menn voru þar að skiptast á ábendingum um áhugaverðar sálfræðibækur. Eigandi annálsins má auðvitað gera hvað sem hann vill við athugasemdirnar (eyða eða yfirstrika) enda er þetta að birt í hans persónulega vettvangi (sbr. Mark) – en gott er að lesendur geti gengið að þessum reglum einhversstaðar.

Árni Svanur @ 8/8/2003 20.38

Það er ekki spurning að það er ágætt að hafa svona reglur opinberar þannig að þeir lesendur annálsins sem vilja tjá sig í ummælum viti að hverju þeir ganga. Það þarf þá ekki að koma þeim á óvart ef/þegar átt er við ummæli sem teljast óviðeigandi samkvæmt siðareglunum.

Þorkell @ 8/8/2003 21.51

Ég er sammála fyrstu tveimur reglunum. Hvað reglur nr. 3 og 4 varðar þá held ég að það verði ávallt að skoða út frá samhenginu. Það skiptir t.d. máli hvers eðlis blótið er. Mér finnst t.d. allt í lagi að segja að bévítans veðrið fari í taugarnar á manni. Þá er það vissulega ávallt álitamál hvenær ummæli snerta ekki umræðuefni. Annars er ég mjög hrifinn af þessu. Þá vil ég að lokum benda á að þótt þessi skrif hafi ekki verið ætluð Birgi megi hann vel taka þau til sín.

Árni Svanur @ 8/8/2003 22.01

Takk fyrir ummælin Keli. Ein leið varðandi blótsyrðin er kannski sú að merkja þau sérstaklega, t.d. með því að strika yfir þau með gráum lit (eins og er gert hér að ofan), í stað þess að eyða þeim. Þess má geta að þetta er gert með því að setja <del> fyrir framan textann sem á að strika út og </del> fyrir aftan hann.

Binni @ 8/8/2003 23.01

Þetta er áhugavert. En ég segi eins og Keli, ég er í vafa um lið nr. 3 og 4. Mér stendur yfirleitt á sama þótt menn blóti. Ef það er skaðlegt, skaðar það mælandann. En stundum er málfarið gott þótt orðbragðið sé ljótt! Ummæli sem snerta ekki viðfangsefnið eru saklaus; það er ekki eins og verið sé að grípa fram í fyrir manni! Oft skapast frjóar umræður í slíkum slagsíðum, rétt eins og í samtölum. Mér þykir ein regla duga: Það sem er beinlínis ærumeiðandi má hverfa.

Árni Svanur @ 9/8/2003 08.12

Varðandi 3 þá finnst mér skipta máli hverjar aðstæðurnar eru, hvað er verið að skrifa um. Dæmi: Ef ég skrifa færslu um súpugerð og umræða spinnst um hana, þá er klárlega óviðeigandi að skjóta þar inn ummælum um að Windows sé ömurlegt stýrikerfi, en Mac OS X lang lang lang best (svo eitt dæmi sé tekið). En ef einhver fitjar upp á því að ræða matargerð almennt, grænmetisætur eða annað sem má skilja sem spuna út frá samræðunni sjálfri, þá gegnir kannski öðru máli.

Árni Svanur @ 9/8/2003 21.07

Jonathan Delacour tjáir sig um sína ummælastefnu.

Hafsteinn @ 10/8/2003 00.21

Ég legg því til að menn kjósi ekki Hafsteinn Þór Hauksson til embættis formanns Sambands ungra sjálfstæðismanna, þ.e. þeir sem eiga völina. Fjandans bévítans bjáninn er búinn að stela léninu mínu. ;)

Árni Svanur @ 10/8/2003 08.21

Þetta er áhugaverð staða sem Hafsteinn setur okkur í. Hvers eðlis eru ummælin hans um nafna sinn? Eru þau:

1. Ummæli sem snerta ekki umræðuefnið?
2. Dæmi um ummæli sem ekki snerta umræðuefnið? Slíkt myndi merkja að þau þau vörðuðu umræðuefnið sem slíkt.
3. Hvort tveggja?

Hér kemur upp athyglisverð siðferðisspurning sem lýtur að því út frá hverju við göngum þegar svona nokkuð er metið. Skiptir til dæmis ætlun Hafsteins einhverju máli? Eða lýtur þetta fyrst og fremst að því hvernig annálaritarinn túlkar málið?

Í bili hef ég í öllu falli strikað út blótsyrðin. Við verðum að sjá til hvort ganga þarf lengra.

árni.annáll.is - » Ummælaumræðan @ 14/1/2009 22.27

[...] margt löngu setti ég á blað nokkra þanka um ummæli og [...]

Lokað er fyrir athugasemdir.

© árni.annáll.is · Færslur · Ummæli